Flokkur fólksins hafði framið þann ófyrirgefanlega glæp að neita að fara í ríkis- og borgarstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þess varð að hefna grimmilega.
Þröstur Ólafsson.
Þröstur Ólafsson skrifaði:
Ofsafengnir eru þessir tímar. Heilt samfélag hamast við að kasta grjóti á konu sem engin lög hefur brotið, átti í kynferðissambandi við ungan mann. Varð ófrísk, ól það barn. Óþverrar útí bæ sem voru að snapa uppi skaðlegar fregnir úr fortíð, til að koma höggi á Flokk fólksins (FF), fundu gömul grafin bein sem hugsanlega gætu nýst við að brjóta niður, sá efa, tvístra. Flokkur fólksins hafði framið þann ófyrirgefanlega glæp að neita að fara í ríkis- og borgarstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þess varð að hefna grimmilega. Og þessu er ekki lokið eins og galvösk óðamála fréttakona á RÚV tilkynnti okkur í hádegi á laugardag, að mig minnir.
Þetta litla íslenska samfélag okkar er siðrænt komið út á ystu brún. Ósvífnin, dómharkan, tillitsleysið hafa engin takmörk lengur. Kristið siðgæði er framandi, lítt þekkt hugtak. Límið í þjóðfélaginu er þornað og molnað. Það varð blindum egóisma að bráð. Sama er hvert litið er. Hagsmunir mínir og sárindi minna ryðja öllu burt. Og egóisminn er ekki bara bundinn við einstaklinga. Hann er orðinn kollektífur beitt fyrir þrönga hagsmuni hópa sem hafa völd sín, fjármuni, tilsmíðaðan metnað og meting að vopni. Lítið samfélag á erfitt með að verjast samtvinnaðri heift og óbilgirni með stórfjölmiðlana tvo ýmist í broddi fylkingar eða á hliðarlínunni.
Aðeins einstaklingar hafa sýnt nægan kjark til að spyrna og vara við. Lítið samfélag þolir vel átök um strauma og stefnur, jafnvel um dreifbýlismál og lagningu vega og gangna. Það þolir ekki opið stríð undir belti eða ítrekaðar ósannaðar og/eða lognar ásakanir um einhverja óhæfu, sem þekktir forystumenn eiga að hafa framið. Þessu moldvörpu- og göturæsa stríði Morgunblaðs og fylgjenda flokka á hægri jaðrinum verður að linna. Of mikið er í veði.