- Advertisement -

Ólafur Ólafsson hringdi í Halldór og mig

Hér segir af tveimur símtölum Ólafs Ólafssonar. Það fyrra er merkilegra en hið síðara. Fyrra símtalið var til Halldórs Ásgrímssonar, sem þá var annar valdamesti maður landsins.

Ólafur skammaði Halldór

Þegar Ólafur Ólafsson, einn forkólfanna í S-hópnum, sem bitust á við Samson og Kaldbak um Landsbankann, fékk fréttirnar um að Samson hefði verið valinn til viðræðna við framkvæmdanefnd um söluna á Landsbankanum var hann staddur á hreindýraveiðum austur á landi. Hann hringdi umsvifalaust í Halldór Ásgrímsson, öskureiður, og hellti sér yfir hann fyrir að hafa gert sig að fífli með þátttöku sinni í söluferlinu á Landsbankanum. Hann hefði varið miklum tíma og fjármunum í undirbúning að kaupunum og væri ósáttur við að hafa ekki fengið að kaupa bankann þrátt fyrir að hafa verið með besta tilboðið þegar á heildina væri litið.

Mærði mig og lofaði

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hitt símtalið er ekki eins mikivægt.

Það var örugglega á laugardagsmorgni sem Ólafur Ólafsson hringdi til mín. Það eru nokkur ár síðan og ég var þá umsjónarmaður Sprengisands á Bylgjunni.

Muni ég rétt sagðist Ólafur vera í Sviss. Hann var allavega í útlandi. Í upphafi símtalsins mærði hann mig mikið og þáttinn minn, einkum og sér í lagi. Eftir því sem hann talaði meira fannst mér sem hann hefði sjaldan eða aldrei hlustað á þáttinn. Má vera að það sé misskilningur.

Að því kom að ég spurði Ólaf hvers vegna hann hefði hringt. Jú, hann var að falast eftir að fá að koma í þáttinn. Ræða sín mál.

Þá, sem fyrr og enn í dag, finnst mér ekkert gaman af viðtölum við útrásarvíkingana. Treysti ekki öllu sem þeir segja. Kannski fæstu.

Þarna sagði ég já, og meira að segja, hvenær sem er. Ólafur var sáttur við svarið.

Ég sagði þá að ég yrði setja honum eitt skilyrði, bara eitt. Nú,hvaða skilyrði? Ég þarf hið minnsta fjögurra daga fyrirvara til undirbúnings, sagði ég. Til að ég gæti spurt um það sem ég taldi skipta mestu máli. Ólafur svaraði þessu ekki strax, en sagðist svo þurfa að hugsa sig um.

Ég sagði ekkert liggja á. Hann gæti bara hugsað sig um og ef hann vildi koma í þáttinn þá myndi hann bara hringja, þó með fyrirvara.

Hann sagðist ætla að gefa sér tíma og hugsa um hvort myndi þiggja boðið.

Ólafur hefur ekki hringt aftur. Ekki enn.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: