- Advertisement -

Rannsóknarefni hvernig biðlistar í kerfinu hafa lengst allt þetta kjörtímabil

Þetta er spurning um líf og dauða þannig að við niðurskurð í heilbrigðiskerfinu hefur kostnaði verið velt yfir á sjúklinga.

Það vantaði ekki lúðraþytinn um endurreisn heilbrigðiskerfisins þegar ríkisstjórnin tók við. Í því ljósi er í raun sjálfstætt rannsóknarefni hvernig biðlistar í kerfinu hafa lengst allt þetta kjörtímabil. Mig langar að nefna hér svar sem mér barst við fyrirspurn fyrr á árinu um stöðu átröskunarteymis Landspítalans. Þar koma nefnilega fram sláandi tölur. Samantekið kemur fram að átröskunarteymið er fjórðungi minna en það var fyrir upphaf kjörtímabilsins. Teymið hefur verið í húsnæðisvanda eftir að hafa flúið myglu fyrir þremur árum og fjöldi á biðlista hefur sjöfaldast á kjörtímabilinu og biðtíminn rýkur eðlilega upp á sama tíma, úr 2–4 mánuðum upp í 18–20 mánuði, eftir því að komast í þjónustu átröskunarteymis Landspítalans. En hvað þýðir þessi biðtími? Á þetta löngum tíma getur sjúklingur með ómeðhöndlaða átröskun komist á margfalt verri stað þannig að öll meðferð verður þyngri og erfiðari og viðkomandi kemst í lífshættulegt ástand. Þetta þýðir líka að sjúklingar og aðstandendur verða að troða marvaðann á þessum biðtíma. En hvernig gera þeir það? Jú, með því að greiða úr eigin vasa sálfræðiþjónustu. Þetta er spurning um líf og dauða þannig að við niðurskurð í heilbrigðiskerfinu hefur kostnaði verið velt yfir á sjúklinga.

Þetta sagði Andrés Ingi Jónsson á Alþingi í gær.

Síðustu vikur hafa bæst við fréttir af alvarlegri stöðu á BUGL. Ráðuneytið benti í svarinu á Landspítalann frekar en að leggja fram framtíðaráætlun en sem betur fer varð kúvending á þeirri afstöðu þegar fjölmiðlar fóru að ganga á ráðherrann og hún ætlaði að kalla eftir áætlun um úrbætur frá Landspítala.

Við erum að tala um litlar upphæðir. Rekstur teymisins kostaði 55 milljónir á síðasta ári. Í dag er alþjóðlegur baráttudagur gegn átröskunum og enn bíðum við frétta af áætlun um úrbætur í meðferð við átröskunum. Það hefði verið gráupplagt hjá ríkisstjórninni að nýta tækifærið í dag og sýna að henni standi ekki á sama um sjúklinga og aðstandendur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: