- Advertisement -

Ríkisstjórnin er hættuleg fátæku fólki

Eldri borgarar og öryrkjar verða áfram breiðu bök ríkisstjórnarinnar og þeir ríku hennar bestu vinir og þurfalingar.

Guðmundur Ingi Kristinsson.

„Fjármálaáætlunin er fædd eftir frestun og eftir mikinn rembing fæddist ekkert. Eldri borgarar og öryrkjar verða áfram breiðu bök ríkisstjórnarinnar og þeir ríku hennar bestu vinir og þurfalingar. Haldið verður áfram að búa til fátæktargildrur með því að hækka ekki ýmsar uppbætur á lífeyri og einnig á að stórauka skatta með því að hækka t.d. ekki persónuafslátt samkvæmt vísitölu,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins.

„Ofsatrúarríkisstjórnin, sem lifir í blindri trú á stjórnmálastefnu sína eins og hún sé einhver töfrabrögð, er hættuleg fátæku fólki. Félagslega heft ofsatrú þeirra á eigið ágæti og á þeirra útgáfu af sannleikanum um hækkanir lífeyrislauna er helber ímyndun af verstu gerð sem bitnar bara á þeim verst settu, í formi vöntunar á mat og öðrum nauðsynjum. Guð hjálpi ríkisstjórninni ef hún ætlar að endurskoða almannatryggingar með því að setja bara smáaura í þá endurskoðun.

Enn alvarlegra mál er í gangi. Það vantar lyf og enn og aftur fær einstaklingur sem er í hjólastól ekki lyfin sín og er verið að valda honum gífurlegum skaða. Þá stórfjölgar þeim sem geta ekki leyst út lyfin sín vegna sárrar fátæktar. Það er grafalvarlegt mál,“ sagði Guðmundur Ingi, allt annað en sáttur við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar.

Ég efast um að hún geri það, því að hún kann það ekki.

„Hvað er að hjá þessari ríkisstjórn? Getur hún ekki einu sinni séð til þess að fátækasta fólkið fái lyfin sín? Þá er eitthvað mjög alvarlegt að. Og ef þú ætlar á heilsugæslu — prófið að panta tíma — þá er uppselt í apríl. Hvað gerirðu þá? Færðu tíma í maí? Nei, þú færð ekki í maí. Þú átt að hringja inn fyrir 17. apríl til að panta fyrir maí. Geturðu hringt hvenær sem er 17. apríl til að panta fyrir maí? Nei, þú hefur einhvern hálftíma að morgni til þess að reyna að komast inn hjá lækni í maí. Ef það tekst ekki, þá þarftu að fara í næsta mánuði.

Ég spyr: Er ekki kominn tími til að ríkisstjórnin skammist sín? Ég efast um að hún geri það, því að hún kann það ekki. Það er kominn tími til að hún fari.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: