- Advertisement -

Ríkisstjórnin toppar sína eigin lágkúru

„Þeir hækka ekki frítekjumörkin eða styrki svo árum skiptir en hækka útvalda.“

Guðmundur Ingi Kristinsson.

„Ég hélt að ríkisstjórnin gæti ekki farið á lægra plan gagnvart þeim verst settu í okkar ríka samfélagi en hún toppar því miður aftur og aftur sína eigin lágkúru. Það er hrikalega ómaklegt og kolrangt og ég tala ekki um ótrúlega ósmekklegt að níðast á þeim verst settu aftur og aftur fjárhagslega, bara af því að ríkisstjórnin getur það í gegnum fjárlögin og gerir þá ekki að fyrsta flokks borgurum, ekki annars flokks, ekki þriðja flokks heldur hendir þeim beint í ruslflokkinn,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson þingflokksformaður Flokks fólksins.

„Á sama tíma er hún að hampa þeim ríku stórlega, skatta- og styrkjalega, á kostnað þeirra sárafátæku. Helmingshækkun verður á stuðningi við einkarekna fjölmiðla á milli ára og segir orðrétt í frumvarpi til fjárlaga árið 2024, með leyfi forseta:

„Heildargjöld málefnasviðs 19 Fjölmiðlun árið 2024 eru áætluð 6.950,4 millj. kr. og aukast um 661,6 millj. kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2023, eða sem svarar til 10,5%. Þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum hækka útgjöldin um 668,6 millj. kr. milli ára, eða sem svarar til 10,6 %.“

„Grínlaust. Ömurlegt.“

Ég endurtek: „Þegar tekið er tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum hækka útgjöldin um 668,6 millj. kr. milli ára, eða sem svarar til 10,6 %.“ Í sama frumvarpi er hækkun til þeirra sem reyna að tóra á lífeyri almannatrygginga upp á 4,9% eða nærri 6% minna. Þeir hækka ekki frítekjumörkin eða styrki svo árum skiptir en hækka útvalda. Það er eitthvað stórkostlega bogið við það að við viljum hækka einkarekna fjölmiðla í eigu ríkra um helmingi meira en þá fátæku í íslensku samfélagi sem eiga enga möguleika á að lifa mannsæmandi lífi. Á sama tíma standa börn í röðum með foreldrum sínum og bíða eftir mat, að fá gefins mat. Ríkisstjórnin getur ekki einu sinni tryggt að enginn þurfi að fara í þá niðurlægjandi för með börnin sín að standa í röð eftir mat og neita sér um tannlæknaþjónustu og læknisþjónustu. Grínlaust. Ömurlegt.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: