- Advertisement -

Ríkisstjórninni er ekki treystandi til að selja ríkiseignir skammlaust

„Staðan er sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur, með dyggum stuðningi Framsóknar og VG, klúðrað sölunni á Íslandsbanka,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson á Alþingi fyrir skömmu.

„Þegar klúðrið komst í hámæli í vor voru viðbrögð ríkisstjórnarflokkanna þriggja að setja frekari áform um sölu bankans á ís um óákveðinn tíma. Nú er skýrsla Ríkisendurskoðunar komin. Það þarf enga snilligáfu til að lesa úr henni að ríkisstjórnin réð ekki við að selja hlut í banka á þann veg að um það ferli ríkti traust né þannig að hámarksverð rynni í ríkissjóð. Það vita allir sem eru eldri en tvævetur að pólitíkin skuldar almenningi það að hér ríki traust á fjármálamarkaði. Og er ríkissjóður í vanda? Já,“ sagði Hanna Katrín.

„Viðreisn hefur stutt sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka að gefinni þeirri forsendu að salan væri á grundvelli almannahagsmuna, með gegnsæi, jafnræði og traust í fyrirrúmi. Svo fór ekki. Sala á þeim hluta Íslandsbanka sem eftir stendur er í uppnámi og þar með sú 70 milljarða kr. fjárfesting í innviðum og niðurgreiðslu skulda sem fyrirhuguð var. Vaxtagjöld ríkissjóðs eru þegar gríðarleg og fara hækkandi. Þetta eru fáheyrðar byrðar á skattgreiðendur í samanburði þjóða og eins og sést í fjárlagafrumvarpinu, sem nú er til umræðu í þinginu, veikir þessi staða m.a. heilbrigðiskerfið okkar þar sem staðan er þegar grafalvarleg.

Ríkisstjórnin hefur sýnt með verkum sínum að henni er ekki treystandi til að selja ríkiseign skammlaust og losa þannig fjármuni. Ríkisstjórnin virðist heldur ekki geta rekið lífsnauðsynlega almannaþjónustu á borð við heilbrigðiskerfið okkar skammlaust. Hvaða úrræði eru þá eftir í hatti ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknar? Hugmyndin er að stoppa í gatið sem myndaðist í Íbúðalánasjóðsklúðrinu með því að senda reikninginn á eldri borgara þessa lands. Hvaða hópur fær þennan reikning frá ríkisstjórninni?“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: