- Advertisement -

Ruðst með byssur innum bakdyrnar

Bjarni Benediktsson sagði, í ræðu sinni á Austurvelli, að lögreglan eigi skilið allt það traust sem henni hefur verið sýnt, t.d. í skoðanakönnunum. Þetta er trúlega rétt hjá Bjarna. Lögreglan er fín, fólk treystir löggunni, t.d. Grími Grímssyni, Árna Friðleifssyni og svo mörgum, mörgum öðrum. Sá galli er þó á þessu öllu. Fólk treystir ekki einum, og það sjálfum lögreglustjóra ríkisins, Haraldi Johannessen. Einmitt þeim sem mestu ræður.

Lögreglan á Íslandi hefur verið án skotvopna. „Þetta er okkar sérstaða. Við viljum halda henni sem lengst. En við viljum líka sýna ábyrgð og vera með vel þjálfaða lögreglumenn sem geta sinnt öllum verkefnum,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í Fréttablaðinu í dag. Nokkuð víst er að Íslendingar treysta Ásgeiri Þór, telja hann fína og góða löggu.

Það er hann Haraldur. Hann er öðruvísi. Ásgeir Þór segir einnig í viðtallinu: „Almennir lögreglumenn vilja halda því sem lengst að þeir verði ekki vopnaðir skotvopnum daglega. Það hefur enginn áhuga á því.“

Af þessu er ljóst að það er meiningarmunur innan lögreglunnar. Hinn almenni lögreglumaður vill fara varlega. Ekki Haraldur. Hann vill rjúfa hefðir.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ásggeir Þór minnist á önnur vopn, sem lögreglan ber alla jafna. „Það er nákvæmlega sama ábyrgð sem hvílir á lögreglumönnum við notkun handjárna, kylfu, gass eða skotvopna. Það er bara mismunandi stig valdbeitingar. Þetta er ekki öðruvísi vald en hitt, það bara hefur meiri afleiðingar.“

Og að lokum þessi tilvitnun í viðtalið við Ásgeir Þór, sem vel að merkja er í Fréttablaðinu í dag. „Við viljum hafa það þannig að við munum aldrei þurfa að nota skotvopn. Það er mikill agi og mikil þjálfun sem lögreglumenn fá en það vill enginn vera sá fyrsti. Það er okkar stefna að það verði enginn sá fyrsti.“

Sigurjón M. Egilsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: