- Advertisement -

Segir lögregluna hlægja þolendur kynferðisofbeldis út af lögreglustöðinni

Við kærum ekki því að réttarkerfið segir okkur að þegja.

„Enn og aftur er spurt: Af hverju kæra þessar konur ekki? Spurningin ætti hins vegar að vera: Af hverju treystum við okkur ekki til að kæra? Hér eru nokkrar ástæður sem er gott að hafa í huga: Endalausar sögur af lögreglufólki sem hlær þolendur kynferðisofbeldis út af lögreglustöðinni. Dómarar sem gefa beint og óbeint í skyn að þetta hafi verið okkur að kenna því að við drukkum of mikið. Kærum er vísað frá vegna skorts á sönnunargögnum þó að við hefðum gert allt rétt, þ.e. það sem réttarkerfinu finnst að við eigum að gera eftir að okkur er nauðgað; fara á neyðarmóttökuna, tala við lögreglu og lækna og fá svo ávítur fyrir að hafa ekki verið nógu skýrar. En það er bara svolítið erfitt að vera skýr þegar heilinn og líkaminn er í áfalli. Það er líka svolítið erfitt að vera skýr þegar gerendur eru okkur svo nákomnir að við hættum á að missa allt okkar bakland frá okkur ef við segjum eitthvað eða að starfsferill okkar, orðspor og fjárhagslegt bakland verði fyrir óafturkallanlegum skaða fyrir að segja frá. Við kærum ekki því að réttarkerfið segir okkur að þegja. Við kærum við ekki því að ef við dirfumst að gera það er okkur úthúðað í samfélaginu. Ef við segjum frá erum við útskúfaðar frá fjölskyldum og vinum,“ sagði Olga Margrét Cilia Pírati á Alþingi í gær.

„Spurningin ætti að vera: Af hverju hætta þessir góðu gerendur ekki bara að áreita, nauðga, lítillækka og valda óafturkallanlegum skaða á lífi kvenna og kynsegin? Skömmin er ekki þolenda. Skömmin er gerenda og réttarkerfis sem hefur gjörsamlega brugðist þolendum kynferðisofbeldis og neita að taka ábyrgð á þeim varanlegum skaða sem það hefur valdið á kynslóðum kvenna og kynsegin sem treysta ekki kerfinu til að ná fram réttlæti,“ sagði Olga Margrét.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: