
Björn Leví Gunnarsson skrifaði:
Til hamingju með afmælið og allt það – en komon … markmiðið að fella íslensk stjórnvöld og ná ákveðnum stjórnmálamönnum niður með því að upplýsa um að þeir hefðu sent peningana sína í skattaskjól?!? Stjórnmálamenn sem senda peningana sína í skattaskjól til þess að komast hjá því að greiða skatta eiga það skilið að falla.
Og nei, það er ekkert um að „það var staðið skil á öllu“ eða „greiddir of háir skattar“. Það er hinn versti útúrsnúningur sem hægt er að fara með og ótrúlegt að nokkur maður skuli trúa svoleiðis bulli.
Það er nefnilega ekki það sama Jón og séra Jón.
En einhverra hluta vegna finnst fullt af fólki þetta vera nægilega frábær stjórnmálamaður til þess að greiða honum atkvæðið sitt. Þrátt fyrir að vera úrskurðaður skattsvindlari. En þannig er nú lýðræðið skrítið.
Það er og verður eitt af undarlegu hlutum réttarkerfisins hvernig fólk sem stelur brauð úr bónus endar í fangelsi (ekkert rosalegar ýkjur) en fólk sem svindlar peningum fram og til baka kemst bara upp með að borga sekt. Kannski af því að fólkið sem þarf að stela úr Bónus hefur ekki efni á að borga sekt? Það er nefnilega ekki það sama Jón og séra Jón.
Til þess að hafa þetta alveg skýrt, þá var honum gert að greiða vangreidda skatta. Matið á því hversu mikið það var reyndist svo of hátt samkvæmt yfirskattanefnd þannig að hann endaði að borga lægri upphæð en fyrst var ákveðin. Allir og amma þeirra kunna að reikna þetta dæmi … nema auðvitað óheiðarlegir stjórnmálamenn sem þurfa að ljúga/snúa út úr til þess að reyna að koma sér út úr klandrinu.
Til hamingju með það, býst ég við. Það tókst. Og fyrir suma er það allt sem skiptir máli.