- Advertisement -

Sigríður skilar skömminni

Það er ekki dónalegt að vera ráðherra. Og geta ráðið svo mörgu. Sigríður Á. Andersen er í þeirri stöðu. Hún ræður mörgu. Og lætur til sín taka.

Sigríður var í útlandinu þegar erlendir rannsakendur bentu pent á að á Íslandi, ólíkt svo mörgum öðrum þjóðum, fá mansalsmál engann framgang. Þrátt fyrir skýr dæmi um klár brot.

Sigríður kom heim og benti á að þeir sem könnuðu málið höfðu ekki einu sinni haft samráð við íslensk stjórnvöld og því sé ekkert að marka það sem útlendingarnir segja. Í krafti valds síns segir hún líklegast að við Íslendingar sendum bara fingurinn. Alla vega að við skellum á þá hurðum og tökum ekki framar þátt í rannsóknum sem sýna Ísland í öðrum flokki þjóða.

Svo bar við að deilur um skipan dómara ærðu allt og alla. Sigríði ráðherra þóknaðist ekki niðurstaða til þess gerðar hæfisnefndar og hrærði í og breytti. Stjórnarþingmenn skiluðu sér í atkvæðagreiðsluna, einsog hefð er fyrir. Tillaga ráðherra var því samþykkt. Enda ræður ráðherrann. Skárra væri það nú.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nema hvað, einn eða tveir fóru í fýlu og stefndu íslenska ríkinu, ríki Sigríðar. Til varnar leitaði ráðherrann til sinna fyrrum vinnufélaga. Af málsvörninni er það eitt að frétta að vinnufélagarnir fyrrverandi hafa komist að því að skipan dómaranna, sé eitthvað upp á hana að klaga, sé alls ekki á ábyrgð ráðherrans, frekar sé það Alþingi og ekki síst forsetinn sem beri ábyrgð, þurfi þess á annað borð.

Alls ekki Sigríður dómsmálaráðherra. Það getur verið gott að vera ráðherra.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: