- Advertisement -

Stjórnlaus útþensla stjórnarráðsins

SDG: „Ég held að það hljóti að vera vegna þess hvernig þessi ríkisstjórn er samansett sem ríkisstjórn flokka sem koma úr ólíkum áttum og vildu ekki þurfa að takast á við pólitík.“

„Þó að ég og háttvirtur þingmaður séum kannski ekki alveg sammála á öllum sviðum þá höfum við bæði áhyggjur af þeirri miklu útþenslu sem hefur einkennt þessa ríkisstjórn. Þegar ég segi þessa ríkisstjórn á ég við þá fyrri líka, þ.e. ríkisstjórn síðasta kjörtímabils, þar sem þetta virðist nánast vera orðið stjórnlaust,“

„Af því að háttvirtur þingmaður nefndi forsætisráðuneytið sérstaklega og 37 nefndir þar þá er það einmitt mjög gott dæmi um áherslurnar eða ég ætti kannski frekar að segja þær leiðir sem þessi ríkisstjórn hefur farið, því að eins og ég nefndi áðan, eftir höfðinu dansa limirnir, og útgjaldaaukningin, fjölgun starfsmanna, fjölgun nefnda, eins og háttvirtur þingmaður bendir á, hefur aldrei, eftir því sem ég kemst næst, verið neitt í líkingu við það sem var á síðasta kjörtímabili.“

Sigmundur Davíð hélt áfram: „Þá sjá náttúrlega aðrir ráðherrar og önnur ráðuneyti þetta fordæmi og gera slíkt hið sama. Það er rétt sem háttvirtur þingmaður segir, það stefnir í áframhaldandi fjölgun á þessu kjörtímabili, ekki aðeins nefnda heldur líka nýrra ríkisstofnana. Þá veltir maður fyrir sér: Af hverju er þetta svona? Ég held að það hljóti að vera vegna þess hvernig þessi ríkisstjórn er samansett sem ríkisstjórn flokka sem koma úr ólíkum áttum og vildu ekki þurfa að takast á við pólitík, vildu einfaldlega eftirláta kerfinu að stjórna og hverjum ráðherra, sem var svo heppinn að fá ráðherrastól, að búa til ný verkefni fyrir sig eða einhverja aðra til að setjast í þessar nefndir. Það er olían í gangverki þessarar ríkisstjórnar, að búa til ný hlutverk fyrir ráðherrana og fyrir hina og þessa sem gætu þá tekið sæti í öllum þessum nefndum og stofnunum.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: