- Advertisement -

Stórfellt rán á eigum almennings

„Akkúrat málið. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur notar sjóði almennings til að færa fyrirtækja- og fjármagnseigendum tugi milljarða án skilyrða. Það er í gangi stórfellt rán á eigum almennings. Hvar er stjórnarandstaðan? Hvar er verkalýðshreyfingin? Það verður að stoppa þjófana. Hvert hringir maður?“

Þetta skrifaði Gunnar Smári eftir að hafa lesið þessi skrif Jóhanns Páls Jóhannssonar:

„Frumvarpið um ríkisstyrki til fyrirtækja fyrir að segja upp starfsfólki var samþykkt í ríkisstjórn og lagt fram á Alþingi í gær – á sólríkum föstudegi rétt áður en Katrín Jakobsdóttir sat vefráðstefnu með Yanis Varoufakis o.fl. og talaði um framtíð prógressífra stjórnmála og baráttuna gegn ofurvaldi fjármagnsins. Plaggið staðfestir það sem margir óttuðust: að stjórnarmeirihlutinn er staðráðinn í að nota tugi milljarða úr sjóðum almennings til að festa í sessi óbreytt valdahlutföll í samfélaginu, skrúfa frá ríkiskrananum til stórra fyrirtækja og smárra án þess að sett séu skilyrði um samfélagslega ábyrgð, án þess að opnað sé fyrir möguleikann á að ríkið eignist hlut í fyrirtækjunum eða að launþegar fái aukna aðkomu að stjórnun og ákvarðanatöku sem varðar vinnustaðinn þeirra. Fyrirtæki munu fá ríkisaðstoð óháð því hvort þau notfæra sér skattaskjól, óháð því hvort þau hafa verið staðin að launaþjófnaði eða öðrum kjarasamningsbrotum. Engar kröfur eru gerðar um sjálfbærari og umhverfisvænni rekstrarhætti eða að dregið sé úr launabili milli starfsmanna meðan aðstoðarinnar nýtur við, engar skorður reistar við ofurlaunum. Um leið verða þúsundir á atvinnuleysisbótum langt undir lágmarkslaunum. Ríkisvaldið er að fara að taka lögmál markaðshagkerfisins úr sambandi – ekki til að endurstilla og skapa jafnara, sjálfbærara og mannúðlegra samfélag heldur einmitt til þess að tryggja að ekkert raunverulega breytist. Kapítalisminn verður í grunninn eins og hann var, en lífskjörin verri, ríkissjóður skuldsettari, opinberi geirinn fjársveltari og staða launafólks veikari.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: