- Advertisement -

Vaknaðu nú, Jón Þór Pírati

Jón Þór Ólafsson, ég sat við hlið Guðmundar Inga Kristinssonar, baráttumanns fyrir bættum kjörum öryrkja, í Silfrinu í gær. Hann nefndi fjölmörg atriði sem skekkja afkomu öryrkja og meðal annars skerðingar vegna launa maka. Ömurlegt að hlusta á.

Nú segir þú Jón Þór, vegna þess að þú býrð í niðurgreiddri íbúð á Stúdentagörðum:

„Það er konan mín sem leigir íbúðina en ekki ég. Það er hluti af hennar öryggi að hafa stúdentaíbúð og ekki hægt að spyrða það við manninn hennar.“

Viss er ég um að mörg okkar taka undir að réttmætt sé að konan þín hafi réttindi, jafnvel þó hún sé gift hátekjumanninum þér.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Og áfram talar þú Jón Þór: „Þetta er hennar réttur og í raun partur af stærri umræðu. Eiga réttindi fólks að tengjast eða skerðast út af maka þínum? Fólk verður að geta verið sjálfstætt þótt það eigi maka.“

Þarna er mergur málsins. Nú hlýtur þú Jón Þór að taka þátt í baráttu Guðmundar Inga og annarra og gera þitt til að laga það sem þau berjast fyrir.

Það er nefnilega hárrétt að fólk verður að geta verið sjálfstætt þótt það eigi maka. Sameinumst öll um það. Líka öryrkjar og eldri borgarar.

Það má alveg spyrja, er réttmætt í öllu því hallæri sem er í landinu, að þingmaður með sín fínu laun, búi í niðurgreiddri íbúð í skjóli maka síns?

Trúlega er það svo Jón Þór, að allt um kring er fólk sem er í verri, og jafnvel margfalt verri stöðu, en þú og þín kona.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: