- Advertisement -

Vandi hjúkrunarheimila – Svandís ber af sér sakir – bendir á sveitarfélögin

…hjúkrunarheimili eru ekki heilbrigðisstofnanir í venjulegum skilningi…

Nokkur sveitarfélög hafa gefist upp á rekstri hjúkrunarheimila og afráðið að „skila lyklunum“ til ríkisins. Dæmi eru um algjört sambandsleysi við Sjúkratryggingar Íslands. Forráðafólk bæjarfélaga hafa kynnst því.

En er ábyrgðin á rekstri hjúkrunarheimila alfarið á ábyrgð ríkisins. Ekki segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Hún sagði á Alþingi:

„Það er nokkur einföldun sem hefur verið í umræðunni sem lýtur að því hverjir beri skyldur gagnvart sínum elstu íbúum í þessum efnum og það eru vonbrigði þegar sveitarfélög segja sig frá þjónustu sem lýtur að þeim hluta, sem er þjónusta við þeirra elstu borgara. Það skiptir þess vegna mjög miklu máli að greina þarna á milli, annars vegar þeirrar þjónustu sem er sannarlega félagsþjónusta og hins vegar heilbrigðisþjónustu af því það er rétt sem kemur fram í máli háttvirts þingmanns að hjúkrunarheimili eru ekki heilbrigðisstofnanir í venjulegum skilningi þess orðs heldur heimili fólks. Fólk er skráð þar með lögheimili en á auðvitað sama rétt og allir aðrir borgarar samfélagsins á því að njóta heilbrigðisþjónustu óháð þeim aldri sem viðkomandi er á.“

Birgir Þórarinsson Miðflokki sagði:

Sjö mánuðum síðar er ekki enn ljóst hver tekur við rekstrinum. .

„Það er athyglisvert að skoða samskipti þessara sveitarfélaga við Sjúkratryggingar Íslands og ég hef hér undir höndum bréf frá Vestmannaeyjabæ til Sjúkratrygginga Íslands. Þar kemur m.a. fram að bærinn sendi uppsögn á samningi í júní 2020 og voru gerðar ítrekaðar tilraunir til að ná tali af forstjóra stofnunarinnar. Loks rúmum þremur mánuðum eftir uppsögnina náði Vestmannaeyjabær tali af fulltrúum frá sjúkratryggingum. Það kom ekkert fram á þeim fundi hver myndi taka við rekstrinum. Sjö mánuðum síðar er ekki enn ljóst hver tekur við rekstrinum. Hinn 17. febrúar barst bréf frá sjúkratryggingum um að enginn hafi lýst yfir áhuga á að taka við rekstri hjúkrunarheimilis í Vestmannaeyjum.“

Hann bætti við: „Á Hornafirði á nýr rekstraraðili að taka við núna um mánaðamótin og þar liggur enginn samningur fyrir. Á Akureyri var gefin út sameiginleg fréttatilkynning um að Heilbrigðisstofnun Norðurlands myndi taka við rekstrinum og síðan var bakkað með það allt saman nokkrum mánuðum seinna.“

Birgir sagði ljóst, að þessi mikilvægi málaflokkur væri í fullkominni óvissu. „Það bitnar ekki síst á heimilisfólkinu á þessum hjúkrunarheimilum og aðstandendum þeirra og þessu fólki er einfaldlega sýnd óvirðing. Við verðum bara að viðurkenna það því að þessi málaflokkur er á ábyrgð ríkisins. Svo snýr þetta að starfsfólkinu. Það veit ekki um framtíð sína. Kemur það til með að halda vinnunni, verður skerðing á launum o.s.frv.? Hvað með réttindi þess almennt? Bæjarstjórar Vestmannaeyjabæjar, Hornafjarðar og Akureyrar funduðu með velferðarnefnd um málið í morgun og var verulega þungt hljóð í þeim.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: