- Advertisement -

„Við þingmenn eigum ekkert erindi í eitthvert jólafrí“

Þetta eru tvöfalt fleiri börn en voru á biðlista hjá stofnuninni þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við árið 2017.

Jóhann Páll Jóhannsson.

„702 börn. Það er fjöldinn sem bíður eftir greiningu og þjónustu hjá Þroska- og hegðunarstöð á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þetta eru bara tölur frá því núna í desember sem ég fékk þaðan áðan. 702 börn. Þetta eru börn sem glíma við ADHD, börn með einhverfu, kvíða, hegðunarvanda, og mörg hafa þurft að bíða í meira en ár eftir að komast að, sum í tvö ár. Þetta eru tvöfalt fleiri börn en voru á biðlista hjá stofnuninni þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við árið 2017,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson Samfylkingu á Alþingi.

„Þau bíða lengur og lengur, sem er afleiðingin af því að starfsmannafjöldi og fjárveitingar eru ekki í nokkru einasta samræmi við hina raunverulegu þörf eftir þjónustu. Þannig er staðan og það vitum við. Hið sama er uppi á teningnum hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins þar sem er tekið á móti börnum með alvarlegar þroskaraskanir. Þar voru á fjórða hundrað börn á biðlista fyrr á þessu ári og þau þurftu líka að bíða í allt að tvö ár eftir að fá greiningu,“ sagði Jóhann Páll.

„Tilvitnun hefst, með leyfi forseta:

„Markmiðum um að bæta snemmtækan stuðning verður ekki náð án þess að biðlistum verði útrýmt en slíkt átak krefst aukinna fjárveitinga til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.“

Þetta sagði Umboðsmaður barna nýlega í erindi til Alþingis en ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er greinilega ósammála þessu því í fjárlagafrumvarpi næsta árs er beinlínis gert ráð fyrir niðurskurði á fjárveitingum til stofnunarinnar og svo áframhaldandi niðurskurði árið 2023 og 2024.“

„Við þingmenn eigum ekkert erindi í eitthvert jólafrí fyrr en við höfum gefið þessum 1.000 börnum og fjölskyldum þeirra skýr fyrirheit um að á þessu verði tekið strax og það birtist þá í fjárlögum með skýrum hætti. Þessi börn eru búin að bíða alveg nógu lengi,“ sagði Jóhann Páll.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: