- Advertisement -

Vilja „að undið verði ofan af“ eigin launaskriði

Að auki vilja Framsóknarmenn rannsaka eigin gerðir, það er áttatíu milljarða „leiðréttinguna“ umdeildu.

„Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins leggur áherslu á að jafna kjör í komandi kjarasamningum og að undið verði ofan af því launaskriði sem hefur verið í efstu lögum samfélagsins,“ segir í nýrri ályktun miðstjórnar Framsóknarflokksins.

„Hér á landi eiga að vera jöfn tækifæri og samtal stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins um stefnu í húsnæðismálum, launaþróun, atvinnuleysistrygginga, stefnu í menntamálum, samspil launa, bóta og skatta er lykillinn að farsælli lausn fyrir allt samfélagið,“ segir þar enn fremur.

Að auki vilja Framsóknarmenn rannsaka eigin gerðir, það er áttatíu milljarða „leiðréttinguna“ umdeildu. Annað er varla hægt lesa úr þessari ályktun:

„Miðstjórn Framsóknarflokksins ítrekar ályktun sem samþykkt var á flokksþinginu í mars 2018 um að skipuð verði rannsóknarnefnd um þær aðgerðir sem stjórnvöld og fjármálafyrirtæki réðust í eftir hrunið.“

En það er ekki bara „leiðrétting“ Framsóknar sem á að rannsaka, ef af verður:

„Það getur hvorki talist eðlilegt né ásættanlegt að um 10.000 fjölskyldur hafi misst heimili sín á nauðungaruppboðum eftir hrun og þegar fjöldinn er slíkur er ekki hægt að líta svo á að um „einkamál“ sé að ræða, heldur djúpstæðan kerfislægan galla sem verður að finna, skoða og leiðrétta.

Framsóknarflokkurinn mun ekki standa aðgerðarlaus hjá á meðan fleiri fjölskyldur missa heimili sín. Lög um nauðungaruppboð og aðfarir eru hliðholl fjármálafyrirtækjum og þau þarf að endurskoða. Jafnframt er kominn tími til að heimilin njóti vafans sem sannanlega er fyrir hendi í viðskiptum þeirra við fjármálafyrirtæki.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: