- Advertisement -

„Villikettirnir“ í hörðu málþófi

Nokkrir stjórnarþingmenn, einkum úr Sjálfstæðisflokki, voru í málþófi á Alþingi í gærkvöld. Mest bar á Brynjari Níelssyni, Sigríði Á. Andersen og Óla Birni Kárasyni. Njáll Trausti Friðbertsson tók þátt, en var í aukahlutverki.

Fréttablaðið skrifar frétt um framgöngu þingmanna án þess að nefna þá á nöfn. Fréttablaðið segir:

„Það vakti athygli í gærkvöldi að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins gerðust áhugasamir um þingmannamál sem var á dagskrá þingfundar, um kynjahlutföll í stjórnum samvinnufélaga. Heimildir blaðsins herma að áhugi þingmannanna lúti þó ekki eingöngu að umræddu máli heldur einnig því sem var á eftir því á dagskrá þingfundar í gærkvöldi, frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra um stuðning við einkarekna fjölmiðla, og öðrum málum sem eru til umræðu í samningaviðræðum milli flokkanna um hvaða mál skuli afgreiða eða vísa til nefnda fyrir jól. Frumvarp umhverfisráðherra um miðhálendisþjóðgarð vekur líka litla lukku innan annarra stjórnarflokka en hans.“

Eftirtekt vekur að Brynjar Níelsson, sem almennt lætur lítið fyrir sér fara í þingstörfunum, talaði fimmtán sinnum alls um kynjahlutfall í stjórnum samvinnufélaga. Aðrir komu ekki eins oft í ræðustólinn.

Uppákoman í gærkvöld er vísir um hvað er að gerast innan ríkisstjórnarinnar. Ólgan eykst og staða „villikattanna“ innan Sjálfstæðisflokksins styrkist dag frá degi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: