- Advertisement -

Willum veldur vonbrigðum

„Ég er ekki vön að skipta skapi þegar ég tala við hæstvirtan heilbrigðisráðherra. Oftast hef ég nú bara átt rólegt og gott samtal við ágætan hæstvirtan heilbrigðisráðherra. En þögn hans núna hefur bara verið ærandi og það eru gríðarleg vonbrigði að verða vitni að því andleysi sem einkennir störf hæstvirtan heilbrigðisráðherra því það er neyðarástand í gangi. Það er neyðarástand í geðheilbrigðismálum og við erum að sjá birtingarmynd þess alls staðar í samfélaginu okkar,“ sagði Halldóra Mogensen á þingi.

„Það er verið að tala um stefnur sem koma einhvern tímann og aðgerðir sem eru óljósar. Ef þetta hefði verið orðræðan í Covid hefði það þótt stórfurðulegt. En nú erum við að horfa á gríðarlega bylgju ofbeldis og við sjáum að það virðist vera til nóg fjármagn hjá hæstvirts dómsmálaráðherra til að fara í stríð gegn fólki. Þá hlýtur að vera til peningur til að hjálpa fólki,“ sagði Halldóra.

„Ég spyr hæstvirtan heilbrigðisráðherra: Er ráðherra sáttur við þessa forgangsröðun? Ætlar ráðherra að tryggja raunverulegt forvarnarstarf þannig að við getum komið í veg fyrir harmleiki framtíðarinnar? Hvar eru aðgerðirnar núna til að grípa utan um þá einstaklinga sem þurfa á því að halda svo að við séum ekki að horfa á aukið ofbeldi hér inn í framtíðina?“

Willum Þór Þórsson svaraði:

„Það er miður að valda háttvirtum þingmanni vonbrigðum. Málefnið er mikilvægt, ég tek undir það. Nýverið jukum við verulega fjármagn í geðheilsuteymin um allt land sem var mikið framfaraskref og hefur gefið góða raun. Við munum halda áfram að byggja upp þar. Þjónustan hefur þannig verið efld með auknu fjármagni, með rúmlega tveimur milljörðum, á liðnum tveimur misserum. Þverfagleg geðheilbrigðisþjónusta í heilsugæslu um allt land hefur verið styrkt til muna. Það er mjög mikilvægt skref og við höldum áfram á þeirri braut. Auðvitað horfi ég til þeirrar aðgerðaáætlunar sem er í vinnslu. Það er okkar hlutverk að móta stefnuna, fara með hana í umræðu í gegnum þingið, fylgja henni eftir eins og þingið mælir fyrir um í formi þingsályktunartillögu og láta aðgerðirnar ganga upp. Það er okkar vinna. Það er okkar verkefni.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: